Já og nei – það geta allir komið með ónýtan bílinn sinn og við tökum á móti honum og rífum niður með umhverfisvænum hætti. Við erum þjónustuaðili fyrir Úrvinnslusjóð, sem tryggir að úrsérgengnir bílar sem koma til okkur hljóta rétta meðhöndlun. Skilagjald fyrir ónýtan bíl er 30 þúsund krónur og er greitt af Samgöngustofu. Til að byrja með þarf að ganga frá afskráningu bifreiðarinnar, en til þess þarf að skrá sig með rafrænum skilríkjum inn hjá vef Samgöngustofu. Þegar við fáum bílinn í hendur tilkynnum við um móttöku bifreiðarinnar hjá Samgöngustofu sem klárar málin fyrir þig. Stöku sinnum kaupum við bíla til niðurrifs af einstaklingum og best er bara að heyra í okkur með möguleika á því.
Langflestir bílar sem við tökum á móti eru nýlegir og tjónaðir bílar sem kaupum af tryggingafélögum. Þegar allir nýtilegir og endurseljanlegir varahlutir hafa verið fjarlægðir úr bílnum er það sem eftir er af bílnum flokkað og selt til frekari endurvinnslu hjá viðurkenndum endurvinnslu– og förgunaraðilum eins og Hringrás og Efnamóttökunni. Hráefnið sem ekki fer í varahluti er misverðmætt eftir því hversu hátt endurvinnslugildi það hefur. Ýmsir góðmálmar eru til dæmis með hátt endurvinnslugildi og eru því hentugir í sölu til annarra endurvinnsluaðila. Rúðugler aftur á móti er með mjög lítið endurvinnslugildi, því mjög erfitt og dýrt getur verið að skilja í sundur glerið frá því hráefni sem er blandað við rúðurnar fyrir aukið öryggi, eins og sand og fleira. Ef þig vantar rúðugler í bílinn þinn eða annað þá er sko alveg þess virði að kíkja á lagerinn hjá okkur. Hann er vægast sagt stór.

Fyrir utan ál, járn og stál, þá tökum við frá t.d. hvarfakúta, hjólbarða og gúmmí, rafgeyma og freon vökva af kælikerfum til frekari endurvinnslu.
Svona bisness getur verið býsna hægur, við vitum aldrei hvenær viðkomandi varahlutur verður seldur eða hvort hann verður það yfirhöfuð – sem útskýrir gríðarstóran lager sem við höfum upp á 70 þúsund+ varahluti. Við vijum helst engu henda og reynum eins og við getum að finna nýjan farveg fyrir hráefnið til að minnka þörf á urðun. Við höfum blessunarlega orðið vör við aukna eftirspurn eftir notuðum varahlutum, sem má að einhverju leyti rekja til þess að bið eftir nýjum varahlutum eykst stöðugt en líka vegna þess að traust á notkun notaðra og rekjanlegra varahluta er að aukast með betri meðferð og meðhöndlun. Þá er almenningur miklu meðvitaðri um hversu mikilvægt það er að endurnýta eins og mögulegt er. Við að sjálfsögðu fögnum því.