Sumir myndu telja að við tækjum á móti ónýtu dóti allan daginn. En ekki við. Við sjáum ekkert nema verðmæti í bílunum sem við tökum við, þó þeir geti ekki gert nákvæmlega það sem þeir gátu áður. Við leggjum okkur fram um að hafa sem „nýjustu“, notuðu varahlutina og til þess að svo megi verða tökum við þátt í tjónauppboðum tryggingafélaganna. Bílarnir eru í mismunandi ástandi þegar við kaupum þá og eðli málsins samkvæmt eru helstu skemmdir oftast á „body“hlutum (hurðir, frambretti, afturbretti).
Notaðir varahlutir hafa mikið endurnotkunargildi
Við tökum hlutverk okkar í hringrásarkerfinu mjög alvarlega og viljum sífellt leitast við að gera betur. Við erum kannski í smá klemmu þar sem við tökum við bílum sem þegar er búið að framleiða og þurfum í raun að koma hlutum sem aðrir bjuggu til inni í hringrásina aftur. Þetta getur vissulega verið áskorun þar sem efniviðurinn er allskonar og stundum getur verið ómögulegt að endurvinna hann. Eins og tróð í sætum. En ef við köfum aðeins í þetta, þá ber fyrst að líta á hvað hægt er að endurnota úr bílunum, þeas hvað í þeim getur haldið áfram að þjóna sama hlutverki og áður? Hjá okkur er svarið varahlutirnir – ef þeir eru í góðu lagi, þá getur nýlegur en notaður varahlutur sinnt áfram sínu hlutverki lengi enn. Úr hverjum bíl er hægt að ná u.þ.b. 150-200 varahlutum. Almennt erum við með eitthvað til í öllum tegundum, en mest eigum við úr Hyundai, Kia, Renault, Skoda, Volkswagen, Dacia og Nissan. Minnst úr amerískum bílum og Toyotu. Við skoðum þá með tilliti til gæða, merkjum með QR kóða, myndum fyrir vefverslun og hann bíður kaups og sömu notkunar í öðrum bíl. Við tölum fyrir aukinni notkun á notuðum gæðavarahlutum og við teljum að með auknu gagnsæi um uppruna, meðferð og ásigkomulagi muni traust og ímynd slíkrar verslunar breytast til batnaðar. Í raun fer frekar lítill hluti af okkar flokkun í að flokka frá notaða varahluti. Því miður.
Mörg hundruð tonn fara til frekari endurvinnslu
Þá komum við að endurvinnslunni, eða hjá okkur er það í raun flokkun til endurvinnslu, sem er stærsti þátturinn í okkar starfsemi. Þegar varahlutir eru farnir frá, tökum við bílana niður til frekari flokkunar. Tökum í burtu hvarfakúta, raftæki, flokkum frá stál, plast og framvegis. Þá taka við samstarfsaðilar okkar hér á landi, en þeir taka við úrgangi frá okkur til frekari flokkunar og endurvinnslu. Þessir aðilar eru m.a. Hringrás og Terra Umhverfisþjónusta en við sendum mörg hundruð tonn á ári til þeirra. Þau hafa síðan á sínum snærum græjur til að flokka hráefnið enn betur frá og vinna niður. Stálið úr bílnunum er þar sennilega mest endurunna varan. Þarna verða til ný verðmæti sem eru flutt úr landi til nýrra hlutverka eins og til húsbygginga.
Við tökum á móti rafbatteríum úr rafmagnsbílum en eitthvað af þeim fer til nýsköpunarfyrirtækisins Icewind, en hjá þeim er verið að vinna að því að endurnýta vöruna fyrir orkuframleiðslu. Annað dæmi um skemmtilega endurnýtingu á hráefni er svo hönnunarvaran Loftpúðinn eða „The Airbag“ sem hönnunarstúdíóið Flétta í samstarfi við FÓLK Reykjavík vinnur úr loftpúðum bílanna og hefur farið sigurför um hönnunarhús hér á landi og í Evrópu.
Bílaframleiðendur með lykilinn að minni förgun
Því miður er það svo að nokkur hluti bílsins fer í förgun og hefur engan farveg til að fara í annan en það. Í dag er það um 15% af bílnum sem fer í förgun. Við nefndum áðan tróð úr bílsætum, en svo er það m.a. líka ýmiskonar plast sem er blandað af allskonar efnum sem er illflokkanlegt. Plast er ekki bara plast nefnilega. Það munu verða til leiðir til að minnka þetta hlutfall enn meira, en til þess þarf í raun að fara í upprunann á framleiðslunni. Bílaframleiðendur eru sem betur fer um allan heim að reyna að finna leiðir ásamt yfirvöldum um hvernig megi framleiða bíl þannig að hann geti „skilað sér aftur til baka“ sem mest. Það sem er upprunalega framleitt, hvaða nafni það nefnist ætti að vera þannig úr garði gert að það sé hæft til einhverskonar endurnotkunar, endurvinnslu eða endurnýtingar. Svo sem minnst, eða ekkert fari í förgun.