Fyrir okkur er ekki bara mikilvægt að tryggja að sem mest af úr sér gengnum bifreiðum verði endurunnar á umhverfisvænan hátt – heldur einnig að það sem til fellur hjá okkur í flokkun endi á réttum stað til annarra hlutverka. Um það snýst hringrásarhagkerfið. Í dag náum við að flokka um 85% af bifreið sem tekin er niður á umhverfisvænan hátt, en við erum sífellt að leita leiða til að að hækka þessa prósentu. Því hafa Netpartar gert samning við Hringrás, sem er leiðandi fyrirtæki hér á landi í endurvinnslu á brotajárni og öðrum málmum, úreltum bifreiðum, hjólbörðum, rafgeymum, og fleiru. Þetta samstarf gerir okkur kleift að auka og bæta við flokkun hjá okkur og skila hreinna og verðmætara efni frá okkur en áður. Hringrás útvegar okkur gáma fyrir brotajárn, ál, dekk og annað sem hjálpar okkur að flokka betur og ná þannig markmiðum landsáætlunar og tekur síðan frá okkur hráefnið með reglubundum hætti.
Hringrás flokkar allt efni sem berst og flytur út, eins og ál, ryðfrítt stál, brotajárn, hjólbarða, góðmálma o.fl. Þessi efni fara til endurvinnslu hjá viðurkenndum endurvinnsluaðilum erlendis.
Já, svona er þetta fallega samstarf okkar Hringrásar. Saman sjáum við til þess að eðlileg hringrás sé á hráefnum þar sem stálið úr bílnum þínum gæti endað sem stóll frá ítölskum hönnuði og svo í þriðju umferð ef til vill sem biti í brú.