Hulda Fanný Pálsdóttir hefur mikinn áhuga á allri hönnun og öðru sem tengist tísku, en hún útskrifast núna í vor frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ af hönnunar- og markaðsbraut. Sem hluta af nýsköpunarverkefni í lokaáfanga í hönnun ákvað Hulda að hanna tösku úr endurnýttum efnum þar sem fólki er sífellt meira umhugað um að kaupa umhverfisvænar vörur. Taskan sem hún hannaði er með haldfangi úr sætisbeltum en til að finna sér meiri sérstöðu ákvað hún að taskan sjálf yrði úr endurnýttum leðursætum úr bílum. Þarna komu Netpartar við sögu en hún fékk næstum allt hráefnið hjá okkur (leðursæti úr bílum og sætisbelti). Fyrst voru svampar hreinsaðir innan úr sætunum og óþarfa saumar en Hulda passaði upp á að efnið héldi sínu upprunalega formi.
Markaðsfræði og stofnun lítilla fyrirtækja var líka hluti af náminu, svo hún ákvað að stofna sitt eigið litla fyrirtæki utan um hönnunina sína og kalla það „AKA-töskur“. Passar sannarlega vel við hugmyndina hennar og sýnir fram á sérstöðuna á mjög skýran hátt.
Við óskum Huldu Fannýju innilega til hamingju með útskriftina og þessa sannarlega glæsilegu sjálfbæru hönnun! Það verður spennandi að fylgjast með hönnun og nýsköpun Huldu hjá AKA-töskum í framtíðinni.