Stutt spjall við Jón Baldvin Jónsson hjá Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar.
Helstu viðskiptavinir Netparta og kaupendur notaðra og rekjanlega varahluta eru bílaverkstæði. Innarlega í Grænni götu við Smiðjuveg í Kópavogi stendur bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar, en það hefur staðið á svipuðum slóðum í um 60 ár eða frá árinu 1961. Saga verkstæðisins er löng en eigendaskipti hafa eingöngu orðið þrisvar sinnum alla þessa tíð. Núverandi eigendur eru Steinþór Jónsson, Jón Baldvin Jónsson og eiginkona Jóns, Lilja Björg Gísladóttir. Starfa þau öll á skrifstofu og verkstæðismóttöku verkstæðisins. Þá vinna níu manns að auki á verkstæðinu. Jón Baldvin var til í stutt spjall.
„Við komum inn sem eigendur árið 2002 en áður hafði ég starfað hjá BFO.“ Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar (BFO) er í dag vottað þjónustuverkstæði fyrir bíltegundir eins og Subaru, Nissan, Renault, Dacia og Honda ásamt almennum viðgerðum á öðrum tegundum bifreiða.
Hverjir eru helstu kostir þess að nýta notaða varahluti? „Einn helsti kostur þess er tvímælalaust verðið á þeim og að geta endurnýtt varahluti aftur. Bíleigendur vilja að sjálfsögðu fá viðgerðina sína eins ódýra og hægt er án þess að það komi niður á gæðum og endingu. Við höfum verslað notaða varahluti af Netpörtum frá stofnun fyrirtækisins árið 2009 án vandkvæða en það er kostur að fyrirtækið tekur rekjanleika varahluta og samfélagsábyrgð af festu.
Vefsíðan þeirra hefur líka reynst mjög vel þar sem ég get auðveldlega leitað í grunninum hjá þeim hvort viðeigandi hlutur er til.“ Jón Baldvin segir að sem þjónustuverkstæði séu þau að sjálfsögðu skuldbundin til að setja nýja varahluti í bíla ef um er að ræða ábyrgðarviðgerð vegna verksmiðjugalla m.a..
Erfiðara að fá nýja varahluti en áður

Jón Baldvin segir að í sumum tilfellum sé orðið erfiðara að fá nýja varahluti sérstaklega í eldri bíla. „Það er hreinlega skortur á þeim í heiminum eða þeir eru hættir í framleiðslu og því er mikilvægt að geta haft góðan varahlutalager hérna heima til að geta þjónustað sem skyldi. Að sjálfsögðu vill viðskiptavinurinn fá bílinn sinn til baka fljótt og vel í stað þess að þurfa að bíða kannski í marga daga eða vikur eftir honum,“ segir hann. Aðspurður hvaða varahluti mest sé keypt af nefnir hann m.a. vélar og sjálfskiptingar. „Við erum ekki að taka inn notaða varahluti sem varða öryggi eins og bremsur og slíkt.
Spyr viðskiptavinurinn um hvaðan hluturinn kemur? „Nei, hann treystir okkur fyrir því að vita hvað er best í stöðunni fyrir hann og bílinn. Þegar kemur að varahlutakaupum störfum við með aðilum sem við höfum getað treyst og hafa reynst okkur vel. Okkar orðspor byggir á trausti viðskiptavina í gegnum tíðina.“
Þjónustusaga bíls ætti að vera til í miðlægum gagnagrunni
Jón Baldvin er þeirrar skoðunar að það mætti gera betur þegar kemur að rekjanleika í viðgerðum á bílum. „Þegar við tökum á móti bíl í viðgerð sem hefur ekki komið áður til okkar, þá getum við með frekar litlu móti séð hvaða þjónustu hann hefur fengið áður eða hvort hann hafi lent í tjóni. Ég tel að svona kerfi eða „sjúkrasaga“ ætti að vera til fyrir bíla fyrir viðurkennd þjónustuverkstæði, þá er hægt að sjá frekar fljótt og vel fortíð bílsins og gera við hann samkvæmt því. Varahlutur er ekki sérstaklega merktur þeim bíl sem hann er í, þá væri best upp á að sjá hvort að hann hafi fengið varahlut úr öðrum bíl á einhverjum tímapunkti. Það getur verið erfitt að greina þetta og getur haft áhrif þegar kemur að því að leita til bílaframleiðenda til að gangast við ábyrgð á biluðum varahlut innan ábyrgðartíma. Þess vegna hef ég sett í verklag hér hjá mér að ef að ég fæ notaðan og rekjanlegan varahlut sem ég set í annan bíl, þá læt ég færa inn á nótur bæði bílnúmer bílsins sem hann kemur úr og svo bílnúmer þess bíls sem hann fer í.“
Leggja áherslu umhverfismál
Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar hefur í mörg ár verið vottað verkstæði samkvæmt ISO 9001 gæðastaðli BSÍ sem tryggir gæði þjónustu til viðskiptavina. „Hluti af því er ekki bara að sinna okkar viðskiptavinum vel heldur einnig að vera ábyrg gagnvart umhverfi okkar. Hér fellur til alveg gríðarlega mikið magn af pappír til dæmis, en mikið af vörum sem hingað koma eru innpakkaðar. Vikulega erum við að fylla u.b.þ. eitt rúmlega 1000 lítra kar af pappír sem fer í endurvinnslu. Þá flokkum við líka öll spilliefni eins og rafgeyma, dekk, plast og málma í samvinnu við bæði Hringrás og Terra, en magnið nemur mörgum tonnum árlega,“ segir Jón Baldvin að lokum.