Flétta hönnunarstúdíó sem hönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir eiga og reka, sérhæfir sig í nýsköpun á efni sem er umfram og finna mætti nýjan tilgang fyrir. Dæmi um slíkt eru ljósakrónur sem þær hanna úr gömlum íþróttabikurunum – og uppvinnslu á loftpúðum úr aflóga bílum.
Sú pæling byrjaði árið 2021 þegar hönnunarmerkið FÓLK Reykjavík kom Fléttu í samband við okkur hjá Netpörtum. Hugmyndafræði og strategía verkefnisins kemur alfarið frá FÓLK og er hluti af verkefninu Hringrásarvæn hönnun sem hlaut styrk úr Hönnunarsjóði og Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. FÓLK valdi Fléttu í verkefnið þar sem þær hafa unnið mikið í endurvinnslu og uppvinnslu hráefnis. Ævintýrið byrjaði þegar stúlkurnar úr Fléttu kíktu í heimsókn til Netparta. „Við fengum túr um allan lagerinn og urðum alveg heillaðar af öllu skipulaginu, en þetta var bara eins og á bókasafni. Við vildum finna efni sem er ekki nú þegar í góðum farvegi og sáum þessa loftpúða, en þeir eru ekki nýttir aftur sem varahlutir í aðra bíla og hafa því engan annan farveg eftir að notkun lýkur.“ segir Hrefna.
Loftpúðarnir sem þær nota eru úr stýrinu og eru í raun ótrúlega heillandi hráefni. „Þeir eru í þessum hráa veruleika, bílum sem eru úr hörðum efnum sem eru síðan undir niðri með þessa ótrúlega mjúku púða í pastelgrænum, -bleikum og -bláum litum sem er mjög áhugaverður „contrast“ við bílana og sá hluti bílsins sem við sjáum sjaldnast – sem betur fer.“
Pælduð þið í upprunalegu hlutverki púðans í bílnum þegar þið hófuð hönnunarferlið?
„Já, við pældum í því hvaða hlutverki hann þjónaði og í hvaða aðstæðum. Við vorum ekki alveg vissar fyrst hvort við vildum fjalla um þetta en svo komumst við að þeirri niðurstöðu að púðarnir væru jákvæðari hlutur en ekki. Þetta er náttúrulega björgunarbúnaður og gegnir þannig mjög mikilvægu hlutverki. Okkur fannst fallegt að hugsa til þess,“ segir Birta.
Hvernig var hönnunarferlið hjá ykkur?
„Það er mikil vinna að ná púðunum út úr bílnum. Við vöndum okkur við að ná þeim sem heillegustum úr bílnum og þvoum þá svo. Oft kemur í ljós mjög skemmtilegur textíll,“ segir Hrefna. Vinnuferlið byrjar þannig að öllu fyrst safnað saman og tilraunir gerðar. „Við skoðum formin og setjum saman á mismunandi hátt, gerum skissur og förum í hugarflug. Okkur finnst áhugavert þegar sagan segir sig sjálf og það átti stóran þátt af hverju við völdum púðana. Púðinn kemur mjög vel formaður úr bílnum og svo bætum við nokkrum smáatriðum við svo hann hafi fúnksjón. Við reynum að eiga sem minnst við hann að öðru leyti. Þeir eru síðan fylltir með fyllingum úr sængum sem safnast hafa hjá fatasöfnun Rauða krossins. Það er mjög forvitnilegt að sjá hvernig svona púði lítur út í raun og veru, en hann kemur úr bílnum með fallegum saumum og mynstrum. „Við vitum aldrei hvernig púða við finnum, en það kemur alltaf ný týpa í ljós sem er alveg geggjað,“ segir Hrefna.
Púðarnir voru kynntir á sýningu FÓLK Reykjavík í fyrra, hvernig voru viðtökurnar?
„Mjög góðar og það sem við gerðum fyrir þá sýningu seldist allt. Þó að margir hafi ekki séð loftpúða þá er þetta partur af okkar daglega lífi sem getur skýrt mikinn áhuga fólks því það getur tengt sig við söguna. Notagildið kom í ljós strax þá en á einhverjum tímapunkti komu inn á sýninguna fullt af krökkum og þau voru fljót að átta sig á hvernig þau gætu nýtt púðana, dreifðu þeim um gólfið og hlömmuðu sér á þá. Þannig að það er hægt að nota þá sem pullu, úti eða inni þar sem þetta er úr mjög slitsterku næloni. Einhver hefur notað sinn í bústaðnum bæði inni og úti. Jógakennarar hafa líka sýnt honum áhuga.“
Þessi uppvinnsla og hönnun á loftpúðunum er algjörlega einstök, en þær Hrefna og Birta Rós vita ekki til þess að slík hönnun hafi áður litið dagsins ljós. Hróður púðanna er að aukast en í september á þessu ári fara þeir á Stockholm Furniture Fair og á næsta ári til Berlínar á sýningu um hringrásarvæna hönnun undir merkjum FÓLK Reykjavík. Þá vinnur FÓLK að því að finna straum af ónýttum loftpúðum á meginlandi Evrópu og taka verkefnið á þann stað að hægt verði að byrja fjöldaframleiðslu.